Skýjaborg

Fimmtudagur, 17. maí 2018

Þann 16. maí útskrifuðum við átta flott börn sem ætla að hefja grunnskólagöngu sína í Heiðarskóla í haust. Þetta var notaleg stund og skein stolt og gleði af börnum og fjölskyldum þeirra. Útskriftarhópurinn söng tvö lög, fengu útskriftarskírteini og gjöf frá leikskólanum sem var birkitré til minningar um veru þeirra í Skýjaborg. Við óskum útskriftarbörnum og fjölskyldum þeirra bjartar framtíðar. Myndir má finna á myndasíðu.

  • Skýjaborg
mánudagur, 14. maí 2018

Börnin á Regnboganum eru að gera tilraun þessa dagana og fylgjast með hvernig nokkrir hlutir rotna. Þetta er liður í grænfánaverkefninu okkar að gera börnin meðvituð um úrgang, hvað verður um það sem við hendum í ruslið. Við leyfum ykkur að fylgjast með.

Föstudagur, 27. apríl 2018

Á vorin hafa börnin á Regnboganum sáð fyrir sumarblómum. Í dag var loksins priklað og plöntunum gefin meiri mold. Þegar hlýnar og plönturnar hafa stækkað meira setjum við þær út í garðinn okkar. 

Fimmtudagur, 26. apríl 2018

Á degi umhverfisins í gær þann 25. apríl skelltu allir sér út að fegra umhverfið í kringum leikskólann og tína rusl. 1-3 ára börnin héldu sig í nálægð leikskólans og tíndu en 3-6 ára börnin fóru um hverfið og út í móa. Þegar heim var komið skoðuðu börnin ruslið, bjuggu til lítið ruslaskrímsli, flokkuðu svo og settu í réttar tunnur.

Hugsum vel um umhverfið okkar, flokkum og minnkum plastnotkun eins og mögulegt er. Við tókum ákvörðun um að nota fjölnota pokana okkar í ruslatínslu og þvoðum þá svo þegar heim var komið.

Föstudagur, 6. apríl 2018

Nú í apríl verður unnið að svokölluðu ytra mati á okkar leikskóla. Það felst meðal annars í því að matsaðilar frá Menntamálastofnun munu dvelja hér í leikskólanum dagana 25. og 26. apríl og fara í vettvangsskoðanir á deildum leikskólans. Einnig taka þeir rýniviðtöl við ýmsa hópa; starfsmenn, foreldra og börn. Því má fólk gera ráð fyrir að óskað verði eftir þátttöku einhverra í umræðuhópa en valið verður í þá með slembiúrtaki. Foreldrum verður að sjálfsögðu kynnt fyrirfram ef börn þeirra lenda í slíku úrtaki.

Pages